Svavar Geir Svavarsson, GO. Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 22. 2011 | 20:00

Viðtalið: Svavar Geir Svavarsson, GO

Annað viðtalið í dag er við Svavar Geir Svavarsson, sem alla tíð hefir verið í GO. Þegar spilað á Urriðavelli í Oddinum eru miklar líkur á að rekast á Svavar Geir, sem er þar nær öllum stundum yfir sumartímann. Hér fer viðtalið við Svavar Geir:

Fullt nafn:  Svavar Geir Svavarsson.

Klúbbur: GO.

Hvar fæddistu? Ég fæddist í Reykjavík, 26. desember 1972, bjó fyrst að Tjarnarbóli í Vesturbænum.

Hvar ertu alinn upp? Í Kópavogi frá 2 ára aldri.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður –  er einhver í fjölskyldunni, sem spilar golf?  Ég er í sambúð með Etnu Sigurðardóttir og við eigum Róbert Atla 12 ára og Arnar Daða, 2 ára. Það eru allir í fjölskyldunni  í golfi.

Svavar Geir lengst til vinstri í kaddýstörfum fyrir son sinn, Róbert Atla á Leirdalsvelli, í keppni á Áskorendamótaröð GSÍ, 21. maí 2011. Mynd: Golf 1.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég byrjaði heima 5 ára gamall, spilaði í kringum húsið heima svona til 10 ára aldurs. Ég fór ekki í klúbb fyrr en 1994, en hafði fram að því skrölt á völlum og leikið mér aðeins.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Pabbi var í golfi og ég sá fyrstu kylfurnar hjá honum. Síðan setti ég sjálfur upp golfholur – var með dollur og setti þær í holu, sem ég gróf niður.

Hvað starfar þú?  Ég er íþróttakennari, en hef m.a. starfað í járnbindingum og sem löggiltur fasteignasali  (var í verðmötum fyrir bankana). Síðan hef ég starfað á Urriðavelli í 2 sumur. Ég er í stjórn Odds og alltaf með annan fótinn hér.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Ég kann betur við mig á skógarvelli. Þar verður maður að vera á leið, en getur ekki spilað út um allan völl eins og á strandvelli.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Ég er meira hrifinn af holukeppnisforminu; það reynir meira á mann sjálfan og svo er alltaf gaman að keppa við einhvern annan.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Oddurinn, maður er búinn að vera of lengi hér. Manni er kærast þar sem maður er. Ég hef verið hér frá upphafi. Við komum hér inn tveir félagarnir, Sigurður Hjaltested og ég fyrsta starfssumarið, Verið var að skrá félaga úr Oddfellow í Odd . Við ætluðum annaðhvort í GR eða GKG ,en keyrðum hingað uppeftir árið 1994) og vorum svo meðal fyrstu félaganna til að ganga í klúbbinn. Hér fékk maður strax svo gott viðmót. Við fengum t.d. strax að fara í golfferð 22 ára, í 27 daga til Flórída –  sá næsti okkur í aldri var 45-50 ára. Ég spilaði mig líka fljótlega inn í sveitina, en allir með 12-14 í forgjöf komust í hana. Síðan hef ég m.a. verið varamaður í stjórn, sat í 2-3 ár (1995-1998) – og er í nýkjörinni stjórn.

Hvert fóruð þið í  Flórída?  Við vorum í Orange County, Flórída.  Þetta var ofsalega skemmtilegt. Það voru mót snemma morguns kl. 6 – það var dregið í lið og keppt. Það var svo mikið sósíal þ.e. reynt að hafa félagslíf í kringum þetta.

Hefir þú verið hjá kennara? Ég fór til Magga Birgis fyrir 6 árum. Hann tók mig í gegn. Svo var ég hjá Björgvini (Sigurbergssyni) í vetur.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Það er Vilamoura í Portúgal. Hann er afskaplega skemmtilegur og situr í minningunni. Ég fór nefnilega og spilaði hann í útskriftarferðinni í menntaskólanum. Við fórum í golf á prime time (yfir háannatímann) Þetta er fyrsti alvöruvöllurinn, sem ég spilaði.  Þeir eru núna orðnir nokkrir vellir á þessu svæði.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju er hann það? Það er völlur rétt hjá Manchester; ég man ekki hvað hann heitir. Þeir lýstu honum sem  „Army Training Ground“ Þetta var völlur, sem var allur í hæðum og það voru hvítar/rauðar  stikur  til að sýna manni stefnuna. Hann situr í minningunni því hann var allur stikaður og maður varð að slá mörg blind högg og það var tölvert labb upp. Á einni par-3 labbaði maður upp – það var slegið yfir gil og síðan varð maður að fara af flöt og leyfa hinu hollinu á eftir að slá. Síðan þurfti maður að labba niður dalinn og upp hinum meginn til að koma sér að holunni.

Hvað ertu með í forgjöf?  9,5

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  76 á þessum velli hér (Urriðavelli) rétt fyrir 2000 í klúbbakeppni milli Odds og Setbergs. Það var spilaður höggleikur í  bullandi rigningu.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það var þegar ég vann 1. maí mótið á Hellu. Ég tók þvílíka dýfu í forgjöf úr 24 í 14 – lækkaði um heila 10 (Ég spilaði á 56 nettó – eða 80 höggum).

Hversu mikið vægi hefur andlegi þátturinn þegar þú ert að keppa í golfi í prósentum talið? Svona 50-60% allaveganna. Ég geng opinn til keppni til að hafa gaman af því – prósentuhlutfallið nær 100% í holukeppni  – ég hef keppnisskap –

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Já, rúnstykki, banana, Poweraide  og vatn.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Já, já, ég spilaði fótbolta með HK og ÍK þar á undan. Ég var mikið í snóker og keppti á Íslandsmótum. Var kannski ekki í toppbaráttunni en með. Ég er íþróttakennari frá Laugarvatni 92-94 og hef gaman af öllum íþróttum.

Hver er uppáhaldsmatur, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er  góð nautasteik (rétt meðhöndluð rare undir bleu); uppáhaldsdrykkurinn er kók; ég er alæta á tónlist – hef gaman af flestu; uppáhaldskvikmyndin mín er „The hand that rocks the craddle“ (með Betty Davis) – hún situr í manni, þetta er sterk mynd og uppáhaldsbók? ég segi pass.

Hver er uppáhaldskylfingurinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kvk.:   Annika Sörenstam.  Kk.: Seve – Hann var mitt átrúnaðargoð. Þegar Bandaríkjamenn gátu ekki borið fram nafnið mitt Svavar, kölluðu þeir mig Seve 🙂

Hvað er í pokanum og hver er uppáhaldskylfan þín?   Í pokanum hjá mér er: TaylorMade Burner dræver ; 3-5 og 7 TaylorMade tré ; 5járn-PW  Callaway X-14; Titleist Vokey 56° og 60° wedgar, Callaway 52° wedge;  pútter Odyssey twoball. Uppáhaldskylfan mín er 7-tréð mitt, sem er frá því 1994. Ég byrjaði að nota  1-3-5 og 7 tré  og hef haft 7-tréð sem uppáhaldskylfu síðan. Strákurinn minn er að spila með þessu setti í dag. Það skiptir engu þó sé með eða /mótvindur ég treysti henni í öll verkefni.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei.

Hvert er meginmarkmiðið í golfinu og meginmarkmiðið í lífinu? Meginmarkmiðið í golfinu er að hafa gaman af því – Meginmarkmiðið í lífinu er að hafa gaman af því líka – Aðalmarkmiðið er þó að fjölskyldunni líði vel.

Hvað finnst þér best við golfið? Félagsskapurinn.

Að síðustu:

Spurning frá síðasta kylfingi (Magnúsi Lárussyni, GKJ),  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Ef þú mættir ráða hvort myndir þú frekar vilja fá Albatross eða fara holu í höggi?

Svar Svavars Geir:  Ég myndi frekar vilja fá Albatross

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning Svavars Geirs fyrir næsta kylfing:

Hvað finnst þér að ættu að vera hámarksfjöldi holla á velli 18, 27 eða 36?