Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 30. 2011 | 22:30

Viðtalið: Þórdís Geirs, GK.

Þórdísi Geirsdóttur þarf ekki að kynna fyrir nokkrum kylfingi á Íslandi – ef einhver á skilið titilinn golfdrottning Íslands þá er það Þórdís. Hún á að baki fjölda Íslandsmeistaratitla, m.a. á þessu ári þegar hún varð Íslandsmeistari 35+ í 8. sinn, nú í Öndverðarnesinu, oftar en nokkur önnur. Eins hefir henni gengið framúrskarandi á ýmsum opnum mótum m.a. Opna Icelandair Golfers mótinu, sem fram fór 14. maí í ár á Hvaleyrinni. Þátttakendur voru um 170 og vann Þórdís höggleikinn á 71 höggi, og var efst hvort heldur var meðal karl-eða kvenkylfinga. Hún varð í 1. sæti í höggleik af konunum í  Opna Heimsferðamóti hjá GHG og GOS, 5. júní 2011 og þá var golfsumarið rétt að byrja og aðeins fátt eitt talið.  Þórdís hefir líka starfað við golfið, en hún er bæði golfkennari og golffararstjóri hjá Vita Golf. Hér fer viðtalið við Þórdísi:

Fullt nafn: Þórdís Geirsdóttir.

Klúbbur: GK.

Hvar og hvenær fæddistu?    Ég fæddist í Reykjavík, 1. október 1965.

Hvar ertu alin upp?  Í Hafnarfirði.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – er einhver í fjölskyldunni sem spilar golf?  Ég er gift Guðbrandi Sigurbergssyni og við eigum 3 syni:  Sigurberg, Geir og Þráinn. Guðbrandur og Sigurberg eru líkt og ég í GK og spila golf. (Innskot: Ýmsir í stórfjölskyldu Þórdísar spila golf  m.a. mágur hennar Björgvin Sigurbergsson, margfaldur Íslandsmeistari og dóttir hans Guðrún Brá, sem er stigameistari GSÍ 2011 í sínum aldursflokki 16-18 ára, með fullt hús stiga og bæði Íslandsmeistari í höggleik og holukeppni í flokki 16-18 ára stúlkna 2011. Mágkonur Þórdísar, Anna Jódís og Kristín Sigurbergsdætur spila golf, sem og börn Kristínar: Jódís og Axel Bóasbörn, en Axel er Íslandsmeistari í höggleik karla 2011 – eins spila bræður Þórdísar golf – Lúðvík, fv. bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Hörður, dómari golf og eflaust einhverjir aðrir í þessari stórfjölskyldu golfsins í Firðinum, sem hér er ekki taldir og eru þeir beðnir velvirðingar á því).

Þórdís Geirsdóttir, GK, hér á 6. braut Gufudalsvallar hjá Golfklúbbi Hveragerðis, í Opna Heimsferðarmótinu GHG/GOS, 5. júní 2011. Mynd: Golf 1.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ég byrjaði 11 ára. Ég gekk í Keili 1976.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Það var vegna þess að bræður mínir voru í golfi – ég stal kylfunum frá þeim Lúðvík og Herði og æfði mig.

Hvað starfar þú?  Ég vinn í Fjarðarkaup og er fararstjóri hjá Vita Golf.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?    Skógarvellir eru meira krefjandi. Það vantar trén á Íslandi þess vegna er krefjandi að spila þannig völl þegar farið er út.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Hér vil ég ekki gera upp á milli keppnisforma – holukeppni er allt öðruvísi, það eina sem ég myndi vilja segja er að það vantar fleiri holukeppnismót.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi (fyrir utan Hvaleyrina)? Vestmannaeyjar er flottasti völlurinn á Íslandi, sérstaklega gamli helmingurinn.

Þórdís Geirsdóttir, GK, í Opna Heimsferðamótinu, hér: á 1. teig hjá GOS – 5. júní 2011. Mynd: Golf 1.

Uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?   St. Andrews, vegna sögunnar. Það er hins vegar fullt af öðrum völlum sem mig myndi frekar langa til að fara á, New Course finnst mér skemmtilegri en Old Course. Ég á eftir að spila svo marga – Það eru margir flottir vellir í Tyrklandi og margir þar, sem koma sterkir inn.  Mér finnst alltaf gaman í golfi og erfitt að gera upp á milli golfvalla erlendis. Þegar ég hugsa mig um er svarið eiginlega að sá sé alltaf skemmtilegastur, sem maður er að spila í það og það skipti.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Turnberry, þar sem umhverfið er sérstakt og allt í kringum völlinn, hótelið, íbúðarhúsin og allt í kringum það.

Hvað ertu með í forgjöf?   2,2.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   68 í Öndverðarnesinu.

Hvert er lengsta drævið þitt?   220 metrar.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Íslandsmeistaratitil 1987 í höggleik – á Akureyri og svo ýmsir Íslandsmeistaratitlar í holukeppnum, sveitakeppnum og 35+

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Íþróttadrykk, flatköku og banana.

Þórdís Geirs, sigurvegari í móti 35+ í Öndverðarnesinu 2011. Mynd: helga66.smugmug.com

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Ég var í frjálsum með FH og æfði það áður en ég þufti að velja milli þess og golfsins, 16 ára.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?   Uppáhaldsmaturinn er íslenskt lambakjöt; uppáhaldsdrykkurinn er Coca Cola; uppáhaldstónlist er allt með gömlu Sálinni og Bjögga; uppáhaldskvikmynd: já ég horfi lítið á kvikmyndir, ætli ég sé ekki búin að horfa mest á „Með allt á hreinu“ í gegnum tíðina; uppáhaldsbók: það eru allar bækurnar hans Arnaldar Indriðasonar.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Kvk.:  Annika Sörenstam.   Kk:  Bjöggi.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum hjá mér eru kylfurnar mínar; TaylorMade Burner dræver,  3-tré og blendingur, Mizuno járn, Cleveland wedge-ar 48°, 52°, 56° og pútter, boltar, tí, regngalli, mælikíkir og gott nesti. Uppáhaldskylfan mín er wedge-inn  minn 48° PW.

Hefir þú verið hjá golfkennara?   Já, ég hef verið hjá Bjögga og Sigga Palla, Andrési Jón, Hödda og Þorvaldi  Ásgeirssyni í gamladaga.

Ertu hjátrúarfull? Nei.

Þórdís Geir, verðlaunahafi á Soroptimistamóti GO, 4. júní 2011. Mynd: Golf 1

Hvert er meginmarkmiðið  í golfinu og hvað er meginmarkmiðið í lífinu? Í golfinu er það bara að njóta þess að spila eins lengi og ég get og í lífinu er það líka að njóta þess að hafa gaman af lífinu og koma börnunum til manns. Það er mikilvægt að lifa lífinu lifandi.

Hvað finnst þér best við golfið?  Félagsskapurinn og útiveran.

Ertu með eitthvað gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Já, það er að láta skapið ekki bera fegurðina ofurliði – það er alltaf gaman í golfi – ekki eyðileggja það með skapinu.

Að síðustu:

Spurning frá fyrri kylfingi (Nökkva Gunnarssyni, NK) sem var í viðtali hjá Golf 1?  Ertu 1Plane 1 eða 2Plane kylfingur? 

Svar Þórdísar: Hvað er eiginlega 1Plane og 2Plane? (Golf1: Tja, ef ég hef ekki misskilið Nökkva þeim mun meir, þá er 1 Plane víð og flöt sveifla og 2 Plane brött og þröng – en það er nú víst eitthvað flóknara en það). Svar Þórdísar: Þá er ég frekar 1 Plane kylfingur.

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing?

Spurning Þórdísar: Geturðu nefnt 3 kylfinga sem þig myndi langa til að spila með?