Úlfar Jónsson, fv. landsliðsþjálfari í golfi. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 16. 2014 | 16:00

Viðtalið: Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari

Viðtalið í dag er við Úlfar Jónsson, sem ákvað nú á dögunum að halda áfram sem landsliðsþjálfari GSÍ:

Fullt nafn:  Úlfar Jónsson.

Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari. Mynd Golf 1.

Klúbbur:   GKG.

Hvar og hvenær fæddistu?   Í Hafnarfirði, 25. ágúst 1968.

Hvar ertu alinn upp?   Í Hafnarfirði.

Í hvaða starfi/námi ertu? Ég er íþróttastjóri GKG og landsliðsþjálfari GSÍ.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Ég er kvæntur og á 3 börn. Konan mín, Helga Sigurgeirsdóttir, spilar golf og eldri sonur minn, Aron, 16 ára, spilar og yngri sonurinn, Hilmar Jón, 10 ára  – hann er mest í taikwando,  en gutlar aðeins í golfi.  Stjúpdóttir mín, Unnar Elsa hefir ekki áhuga á golf, en er meira í fótbolta.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég var 8 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?    Ég fór fyrst með pabba út á Hvaleyrarvöll og upp frá því var ég  þar að leika mér allan daginn – öll sumur frá morgni til kvölds.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Skógarvelli – það hentar mér betur – Ég sé hlutina skýrar og hvað ég þarf að gera. Annars eru bæði betra. Ég hef líka gaman af áskoruninni að spila strandvelli. En það er eitthvað við það að vera á skógarvelli. Þar er allt miklu mýkra maður getur slegið meira á pinnann. Ég hef yfirleitt haft gaman af því að spila skógarvelli.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?   Holukeppni – þar er maður  frjálsari og er minna að hugsa um skorið. Þar telur hvert högg eða hola og maður getur leyft sér að taka meiri áhættur.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Það eru Vestmannaeyjavöllur, Hvaleyrin og Grafarholtið af hvítum teigum.

Grafarholtið af hvítum teigum er einn uppáhaldsvöllur Úlfars. Mynd: GR

Grafarholtið af hvítum teigum er einn uppáhaldsvöllur Úlfars. Mynd: GR

Hefir þú spilað alla velli á Íslandi?  Nei, en ég hef spilað alla 18 holu vellina. Ætli ég hafi ekki spilað svona helminginn af 65.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?   Pebble Beach – Ég spilaði þar eftir háskólamót í Bandaríkjunum. Og svo er sérstakt að spila St. Andrews, vegna umhverfisins og þess að þar er uppruni golfsins.

7. flötin á par-3 brautinni á Pebble Beach Golf Links - ein mest ljósmyndaða par-3 braut í heimi. - Einn ppáhaldsgolfvöllur Úlfars erlendis

7. flötin á par-3 brautinni á Pebble Beach Golf Links – ein mest ljósmyndaða par-3 braut í heimi. – Einn ppáhaldsgolfvöllur Úlfars erlendis

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Það er Prestwick – þar sem Britsh Open fór fyrst fram – völlurinn er skemmtilegur og sérstakur – Þar er t.a.m. par-3, þar sem  þarf að slá yfir hól – það er bara skotmark upp á hólnum  til að miða á.

Hóll beint fyrir framan teig á par-3 braut á Prestwick? Úlfari finnst Prestwik og fornu holurnar þar einhverjar þær sérstökustu sem hann hefir spilað.

Hóll beint fyrir framan teig á par-3 braut á Prestwick? Úlfari finnst Prestwik og fornu holurnar þar einhverjar þær sérstökustu sem hann hefir spilað.

Hvað ertu með í forgjöf?  0,1

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?    60 högg á æfingahring á Punta Gorda í Suður-Flórída ; en  í móti: ætli það sé ekki 64 í Vestmannaeyjum, þ.e. 6 undir í unglingamóti – og síðan var ég á 7 undir pari, þ.e. 65 höggum í Qualifying móti í Bandaríkjunum fyrir PGA Tour, 1994,  en þá munaði 2 höggum að ég kæmist áfram.

Hver eru helstu afrekin til dagsins í dag í golfinu?   Það eru Íslandsmeistaratitlarnir 6 og Norðurlandameistaratitillinn 1992.

Hefir þú farið holu í höggi?   Já, en bara 1 sinni. Þá var ég bara 14 ára. Ásinn kom á Hvaleyrinni á 11. holu, sem var par-3  braut og um 140 metra. Hún er ekki lengur til, en liggur þar sem 18. holan er núna –  Flötin var um  100 metra frá skálanum.

Spilar þú vetrargolf?  Úlfar: Hérna á Íslandi? Nei ekki lengur – ég gerði það þegar ég var krakki og unglingur – þá æfði ég alla daga ársins – ég var jafnvel heima að pútta og chippa og ef það var möguleiki að fara út  t.a.m. á Hvaleyrina þá fór ég mjög oft. Það er helsta ástæða fyrir að ég náði þeim árangri sem ég náði, að ég æfði allan ársins hring.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?    Yfirleitt drykki. Annars er  nestið misjafnt eftir þvi hvort ég er að keppa eða bara að leika mér. Ef ég er í keppni er ég með nóg að borða:  t.d.  ávexti, samloku, orkustykki jafnvel súkkulaðistykki. Ég er með það sama þegar ég er að leika mér með félögunum en  kannski tek ég ekki eins mikið nesti.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?     Þegar ég var unglingur æfði ég körfu með Haukum og badminton með BH.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn; uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd  og uppáhaldsbók?    Uppáhaldsmaturinn minn er: humar; uppáhaldsdrykkurinn er: kók í klaka; upáhaldstónslistin er: gott klassískt rokk, allt með Bruce Springsteen, U2 og Led Zepelin; uppáhaldskvikmynd: eru myndirnar sem ég horfi á með strákunum mínum – mest Avenger og ævintýramyndir;  uppáhaldsbókin: Ég les ekki mikið nema golfbækur. Ætlu sú sem sé í mesta uppáhaldinu sé ekki The Match eftir Mark Frost.

The Match er uppáhaldsbók Úlfars

The Match er uppáhaldsbók Úlfars

Notarðu hanska?  Nei, ég hef aldrei notað hanska, Ég er með ofnæmi fyrir leðrinu eða efninu sem notað er í hanskana.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?    Kvk: Annika Sörenstam.  Kk:  Tiger.

Hvert er draumahollið?   Ég og….  Tiger, Seve og pabbi.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?   Ping I15 dræver, Tour Edge 3-tré,  TaylorMade blendingur, Ping járn, Titleist Wokey wedgar – 50°, 54° og 58° og svo Ping Anser pútter.  Þær eru allar í uppáhaldi.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Fyrstu árin var ég hjá Þorvaldi heitnum Ásgeirssyni svo í kringum ativnnumennskuna  hjá Arnari Má Ólafssyni.

Ertu hjátrúarfullur?     Nei, en ég var það.  Mér fannst t.d. bolti sem merktur  var nr. 3 verri en aðrir, en nú finnst mér það ekki lengur.  Ef manni gengur vel reynir maður að passa upp á að gera allt eins – t.d. vera með sama merki eða hanga á sama boltanum. Ef illa gengur reynir maður að breyta – skipta um bolta/taktík.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?   Að hafa gaman af hvorutveggja.

Hvað finnst þér best við golfið?   Hér áður fyrr fannst mér best að það væri undir mér komið hvernig gekk – mér fannst það flott  og leið mér alltaf best út á golfvelli. Það var bara upplifunin, grasið lyktin af grasinu, umhverfið og félagsskapurinn. Nú á dögum finnst mér félagsskapurinn skipta meira máli áður fyrr.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?    Það er mjög há prósenta. Tæknin og það andlega hanga saman Ef ég er góður tæknilegu hliðinni,  þá verður andlega hliðin góð. En ef sveiflan er slæm nærðu bara að bæta það upp með góðu hugarfari – Með góðu hugarfari  nærðu að bæta það upp slakan hring hverju sinni en ef þú bætir tæknina bætirðu golfið og andlegu hliðina.

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Kylfingar verða að muna af hverju þeir eru í golfi. Slæmu höggin eru hluti af golfinu og á einum golfhring mun ýmislegt gerast. Það verður að taka slæmu höggunum af ró og þolinmæði – muna eftir að hafa gaman og muna að það eru í raun forréttindi að fá að spila golf.