Ragnheiður Jónsdóttir | október. 6. 2012 | 09:30

PGA: John Daly í 6. sæti þegar JT Shriners Open er hálfnað

John Daly er í 6. sæti þegar Justin Timberlake Shriner Open er hálfnað á TPC Summerlin í Las Vegas…. og eins og alltaf þegar John Daly er ofarlega í mótum er það fréttnæmt. Hann stelur athyglinni frá hinum, jafnvel þeim sem eru í efsta sæti. Enda var Daly flottur í eiturgrænum golfbol og skræpóttum buxum eins og hann kemst einn upp með að vera í!  En það sem er ánægjulegast er að hann vakti ekki síður athygli fyrir góða frammistöðu á golfvellinum.

Daly var meðal þeirra 3 sem voru á besta skorinu í mótinu í gær (hinir voru nýliðinn Daníel Summerhayes og Vijay Singh frá Fidji eyjum).

Hann spilaði á 8 undir pari, 63 höggum og þar jafnaði hann lægsta skor sitt á þessu ári. Daly fékk 1 örn, 8 fugla og 2 skolla á hringnum.

Hinn  tvöfaldi sigurvegari  á risamótum (Daly) er í 132. sæti peningalista PGA Tour og er að reyna að koma sér meðal 125 efstu til þess að tryggja sér full spilaréttindi á PGA Tour fyrir næsta keppnistímabil. Það er vonandi að honum takist ætlunarverkið!